16. okt 2023

Norðurorka hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Mynd frá afhendingu Jafnvægisvogarinnar 2023. 
Ljósmyndari: Silla Páls
Mynd frá afhendingu Jafnvægisvogarinnar 2023.
Ljósmyndari: Silla Páls

Fyrir helgi fór fram ráðstefna Jafnvægisvogarinnar FKA (félag kvenna í atvinnulífinu) en hún er liður í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Við töpum öll á einsleitninni - Jafnrétti er ákvörðun. Þar kynnti Eliza Reid forsetafrú viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar. Viðurkenninguna hljóta fyrirtæki sem náð hafa að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnun og er Norðurorka á meðal þeirra.

Við í Norðurorku erum svo sannarlega stolt af því að vera á meðal þeirra fyrirtækja sem hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2023. Það var hún Glódís Hildur Heiðarsdóttir sem tók við viðurkenningarskjalinu fyrir okkar hönd, en Glódís er einn af fimm öflugum fulltrúum starfsfólks í jafnréttisráði Norðurorku. 

Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til fimmtíu og sex fyrirtækja, ellefu sveitarfélaga og tuttugu og tveggja opinberra aðila úr hópi þeirra 239 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu. Markmið jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði. 

Jafnréttismál mikilvægt forgangsmál

„Það hefur verið gaman að fylgjast með Jafnvægisvoginni stækka undanfarin ár og jafnréttismál verða að mikilvægu forgangsmáli hjá okkar þátttakendum. Þátttakendur taka stoltir við viðurkenningu og hafa verið duglegir að vekja athygli á jafnréttismálum innan sinna vinnustaða með ýmsum hætti. Þrátt fyrir það eru konur einungis 21% framkvæmdastjóra í atvinnulífinu hér á landi og 24% séu stjórnendur stofnana og sveitafélaga tekin með. Þetta hlufall hefur lítið haggast á undanförnum árum líkt og sýnt var fram á í þeim erindum sem flutt voru á ráðstefnunni“ - að sögn Bryndísar Reynisdóttur verkefnastjóra Jafnvægisvogarinnar.

Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar/TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. 

Merki jafnvægisvogarinnar 2023