Vatnið er dýrmæt auðlind

Vatn er án efa ein verðmætasta auðlind jarðar. Íslendingar búa við þau forréttindi að hafa gott aðgengi að fersku vatni sem ekki þarf að meðhöndla fyrir neyslu. Langstærsti hluti landsmanna hefur greiðan aðgang að fersku vatni, en rúmlega 95% er ómeðhöndlað grunnvatn. 

Íslendingar nota mjög mikið af vatni og er óhætt að segja að við verðum oft kærulaus við notkunina og látum vatnið renna að óþörfu. Einhverjir kunna að velta fyrir sér hvort það skipti einhverju máli þar sem við eigum svona mikið vatn. Skiptir máli þó vatnið "hafi viðkomu" heima hjá okkur á leiðinni út á sjó? Einfalda svarið við þessu er já, það skiptir máli. Því þeim mun meira vatn sem við notum, þeim mun meiri vinnu og kostnað þarf að leggja í að koma vatninu til notanda, því það gerist ekki að sjálfu sér.

Norðurorka hefur látið útbúa eftirfarandi myndband sem minnir fólk á að bera virðingu fyrir vatninu og láta það ekki renna að óþörfu.