31. jan 2019

Heita vatnið og kuldatíð

Það hefur ekki farið framhjá mörgun að Veitur hafa liðna daga beðið viðskiptavini sína að fara sparlega með heita vatnið. Norðurorka tekur undir með Veitum og hvetur viðskiptavini á veitusvæði Norðurorku til að fara vel með heita vatnið og huga að notkun sinni og mögulegri sóun.  Við hjá Norðurorku höfum áður séð hærri rennslistölur, en eru í augnablikinu, en nú er spáð miklu og áframhaldandi frosti næstu viku og þegar svo er verður mikill niðurdráttur í vinnslusvæðinu á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit.

Heitavatnsnotkun á Akureyri hefur vaxið hratt liðin ár og var aukningin um 5% liðið ár sem er rúmlega tvöföldun vaxtar sé horft til meðalárs. Mikið hefur verið byggt á Akureyri og nágrenni og svo virðist sem hver einstaklingur sé að nota aukið magn sé horft til aukningar í íbúafjölda.

Ástæða mikils niðurdráttar á Laugalands- svæðinu er m.a. sú að liðið sumar var boruð þriðja borholan á Hjalteyri og á meðan á borun stóð varð að stöðva dælingu úr jarðhitakerfinu á Hjalteyri. Þannig varð að sækja stóran hluta af heitavatninu á Laugalandssvæðið sem þar með stóð lakar í vetrarbyrjun en í meðalári. Laugalandssvæðið er að jafnaði hvílt yfir sumarið og notað sem toppafl yfir vetrarmánuðina.  (Á myndinni til hægri má sjá aðveituæð hitaveitunnar frá Laugalandi til Akureyrar)

Miklar framkvæmdir eru í gangi við að auka orkumátt hitaveitunnar m.a. er verið að leggja nýja lögn frá Hjalteyri til Akureyrar með tilheyrandi jaðarverkefnum. Lokið er hluta framkvæmda innan Akureyrar en nýja lögnin þarf að tengjast meginkerfi hitaveitunnar í Þórunnarstræti. Hjalteyrarlögnin verður lögð í áföngum en eftir áfangann sem áætlað er að leggja á árinu 2019 næst strax aukinn orkumáttur. (Hér má sjá frétt um lagningu Hjalteyrarlagnar frá því sumarið 2018

Í dag er staðan sú að skerpt er á heita vatninu og bakrásarvatninu með tveim stórum varmadælum sem og olíukatli.

Norðurorka ítrekar ósk sína um að viðskiptavinir fari vel með heita vatnið og hugi að notkun sinni.