Ný Hjalteyrarlögn

Undanfarin ár hefur verið stöðugur vöxtur í heitavatnsnotkun Akureyringa og á árunum 2000 - 2020 tvöfaldaðist orkuþörf hitaveitunnar. Á síðustu árum hefur hitaveitan þurft að vera á fullum afköstum yfir köldustu vetrardagana og því hefur lítið mátt útaf bregða í rekstrinum. 

Um er að ræða gríðarlega stórt verkefni og mikla fjárfestingu eða rúma tvo milljarða í heild með borunum og dælubúnaði. Verkefninu er áfangaskipt.

Það er von okkar að ný Hjalteyrarlögn (og eldri lögn) muni duga samfélaginu við Eyjafjörð næstu áratugina.

Forsagan

Vinnsla á heitu vatni hófst á Arnarnesi (Hjalteyrarsvæðinu) árið 2002 og árið 2005 var annarri vinnsluholu bætt við og var hún hugsuð fyrst og fremst sem varahola. Með vaxandi heitavatnsntokun á þjónustusvæði Norðurorku varð þróunin sú að nota þurfti báðar holurnar allan ársins hring enda stendur Hjalteyrarsvæðið undir um 60% af því heita vatni sem notað er á Akureyri.  Ástæða mikillar afkastagetu jarðhitakerfisins við Hjalteyri er talin sú að lekt bergs sé betri og aðstreymi vatns greiðara en þekkist á öðrum vinnslusvæðum Norðurorku. 

Flutningsgeta aðveitunnar frá Hjalteyri hefur hinsvegar verið takmarkandi þáttur í nýtingu vinnslusvæðisins þar sem eldri lögn (300 mm) bar ekki allt það heita vatn sem bærinn þurfti á álagstímum. Því var farið í að leggja nýja aðveituæð frá Hjalteyri til Akureyrar og er nýja aðveituæðin, sem er 500 mm, í raun hrein viðbót þar sem eldri lögnin verður áfram nýtt. 

Borun á Hjalteyri vorið 2018

Vorið 2018 var þriðja holan boruð á Arnarnesi enda orðið aðkallandi að bora eina vinnsluholu til viðbótar svo að Norðurorka hefði varaholu tilbúna til að dæla úr kerfinu.  Holan stóð fyllilega undir væntingum og sýndu niðurstöður sk. blástursprófs sem ÍSOR framkvæmdi fyrir Norðurorku fram á að holan væri í mjög góðu sambandi við jarðhitakerfið og að vinnslustuðull hennar væri með því hæsta sem sést hefur fyrir lághitaholu á Íslandi. 
Það er því ljóst að það viðbótarvatn sem þarf inn á kerfið á Akureyri á næstu árum mun koma frá Hjalteyri. 

Fyrsti áfangi árið 2018 - Lagning innanbæjar á Akureyri

Fyrsti áfangi verkefnisins var lagning innan bæjarmarka Akureyrar, þ.e. frá dælustöð Norðurorku á Glerártorgi og út fyrir Hlíðarbraut. Segja má að sá áfangi hafi verið nokkuð snúinn vegna umferðar og óvissu með legu eldri lagnakerfa í bænum.
Einnig er óhætt að segja að flóknasti hluti þessa áfanga hafi verið lagning Hjalteyrarlagnar undir botn Glerár en það var gert um haustið þegar dregið hafði úr vatnsrennsli árinnar. Áin var þá stífluð og leidd í gegnum þrjú stór rör. Sökkum var komið fyrir á árbotni og lögnin síðan hífð á sinn rétta stað.

Annar áfangi árið 2019 - Lagning frá Hjalteyri að Ósi

Annar áfanginn var unninn sumarið 2019 þegar lögnin var lögð um 6 km leið frá Hjalteyri að Ósi, sem er skammt norðan Hörgár. 

Þriðji áfangi árið 2020 - Lagning frá Ósi að Skjaldavík (2020)

Þriðji áfangi verkefnisins felur í sér lagningu frá bænum Ósi að Skjaldavík. Lögnin liggur skammt vestan Skipalóns og við þverun Hörgár fer hún í gegnum hólma sem þar er í ánni. Ferðalagið undir ána var því tvískipt með áfangastað í hólmanum. Stóran skurð þurfti til að hægt væri að leggja lögnina undir ána. Þar sem hann var dýpstur var hann um 5 m djúpur, jarðvegur sendinn og malarkenndur þannig að bakkarnir runnu mikið niður og úr varð afar breiður skurður. Notaðar voru 4 dælur af stærðinni 6-10'' til að dæla því sem lak í gegnum jarðveginn úr skurðinu. Slíkt var nauðsynlegt bæði til að reyna að minnka hrunið/sigið úr skurðköntunum sem og til að koma rörinu niður í sökkurnar því flotkrafturinn í rörinu er mikill.

 Myndir frá verkefninu