13. okt 2022

Viðurkenning jafnvægisvogarinnar 2022

Mynd frá afhendingunni í gær. Mynd: Silla Páls.
Mynd frá afhendingunni í gær. Mynd: Silla Páls.

Í gær fór fram ráðstefna Jafnvægisvogar FKA, Jafnrétti er ákvörðun, en hún er liður í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum. Ráðstefnan fór fram í höfuðstöðvum RÚV í Efstaleiti og var sýnt frá henni í beinni útsendingu á RÚV.

Tilgangur Jafnvægisvogarinnar er, eins og áður segir, m.a. sá að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði 40/60 kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Auk þess að veita viðurkenningar og draga fram í sviðsljósið þau fyrirtæki sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar um virka jafnréttisstefnu og jafnt kynjahlutfall í framkvæmdastjórn. Á ráðstefnunni var boðið uppá fræðandi erindi auk þess sem veittar voru viðurkenningar til þeirra fyrirtækja sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi í a.m.k. 40/60.

Við í Norðurorku erum svo sannarlega stolt af því að hafa verið eitt af þeim fyrirtækjum sem hlaut viðurkenningu jafnvægisvogarinnar að þessu sinni. Það var Einar Ingi Hermannsson sem tók við viðurkenningarskjalinu fyrir okkar hönd en Einar Ingi er einn af fimm öflugum fulltrúum starfsfólks í jafnréttisráði Norðurorku.