2. jún 2022

Metansala og metangæði

Síðustu átta árin hefur Norðurorka framleitt metangas úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal fyrir ofan Akureyri. Það er mikill ávinningur falinn í föngun hauggass, og framleiðslu metangass úr því, fyrir samfélagið allt og ekki síður umhverfið.

Í frétt á heimasíðu okkar frá því 8. júlí 2021 má sjá ítarlega samantekt um metanframleiðslu Norðurorku. Þar kemur m.a. fram að ýmis vandkvæði fylgja öflun á hauggasi uppúr gömlu ruslahaugunum en mest er að framleiðslugeta haugsins er minni en upphaflegt spálíkan gerði ráð fyrir.

Frá því framleiðslan hófst hefur sala metans aukist jafnt og þétt á hverju ári sem er gleðilegt en aukningin hefur jafnframt leitt af sér nýjar áskoranir. Ársframleiðsla metans árið 2021 var rúmlega 270.000 Nm3. Söluaukning það sem af er ári þ.e. janúar til og með apríl er rúm 10%.

Samfara aukinni notkun og vandkvæðum við öflun metans úr haugnum, hafa gæði framleiðslunnar því miður slaknað. Gæði metangassins er nú gjarnan um 86% en voru í upphafi yfir 90%. Þetta þýðir að drægni bíla minnkar, þeir komast færri kílómetra á fyllingunni. Þetta er vissulega leitt en rétt er að benda á að á sama tíma hefur jarðefnaeldsneyti hækkað mikið í verði svo metanið er enn mun hagstæðara þrátt fyrir minni drægni.
Tekin hefur verið ákvörðun um að eftir atvikum verði flutt metangas frá SORPU til Akureyrar svo við eigum fyrir viðskiptavini okkar við toppálag og svo ekki komi til tímabundinna lokana, sérstaklega fyrir einorkubíla sem ganga eingöngu fyrir metani. Undirbúningur, svo sem efnisöflun og kerfisbreytingar, taka nokkurn tíma svo ekki er hægt að útiloka að einhverjar lokanir verði í sumar. Flutningur á metan milli landshluta er kostnaðarsamur og því miður ekki svo umhverfisvænir í dag, þegar flutt er með flutningabílum sem brenna jarðefnaeldsneyti. Síðar á árinu áætlum við að taka í notkun stærri flutningseiningu, sem rúmar meira magn, sem gerir flutninginn hagstæðari. Búast má við að gæði metangassins aukist tímabundið þegar flutt gas er tengt afgreiðslustöðinni.

Engar ákvarðanir hafa verið af hendi samfélagsins hvort byggja eigi upp nýja framleiðslustöð fyrir metan á Akureyri, né á hvers hendi það kunni að verða. Mögulega mun SORPA, í náinni framtíð, framleiða fljótandi metan sem mun gera flutninga mjög hagstæða og því verði ekki þörf á framleiðslu metangass á Akureyri.