2. sep 2022

Hundrað ár frá stofnun Rafveitu Akureyrar

Glerárstífla uppsteypt árið 1921.
Glerárstífla uppsteypt árið 1921.

Í september eru hundrað ár liðin frá því að raforkuframleiðsla og -dreifing hófst á Akureyri. Aldarafmælis framleiðslu og dreifingu rafmagns í bænum er minnst með ýmsum hætti núna í september.

Upphafið

Stofndagur Rafveitu Akureyrar er 30. september 1922, þegar straumi var hleypt á rafdreifikerfið á Akureyri. Þessi merki áfangi í sögu bæjarins átti sér þó langan aðdraganda því fyrstu hugmyndir um raflýsingu á Akureyri kviknuðu í kringum aldamótin 1900. Mikill kostnaður óx Akureyringum í augum en þrátt fyrir það voru ýmsir möguleikar skoðaðir og undirbúningsvinnan leiddi síðan til þeirrar ákvörðunar árið 1921 að ráðast í stíflugerð í Glerá það ár og stöðvarhús Glerárvirkjunar var byggt árið eftir. Virkjunarframkvæmdir gengu vel og þann 17. september 1922 var fulltrúum í bæjarstjórn Akureyrar boðið að vera viðstaddir þegar rafmagnsvélarnar voru gangsettar í fyrsta skipti. Allt gekk þetta að óskum og tæpum hálfum mánuði síðar, 30. september, fengu fyrstu húsin afl frá Glerárstöð. Stór og mikilvægur kafli í sögu Akureyrar var þar með í höfn. Heildarkostnaður við virkjunina var 350 þúsund krónur, sem var nokkru lægri fjárhæð en áætlað hafði verið.
Árið 2000 var Norðurorka sett á stofn með sameiningu Rafveitu Akureyrar og Hita- og vatnsveitu Akureyrar og frá stofnun Norðurorku hefur fyrirtækið annast dreifingu raforku á Akureyri.

Fyrrverandi starfsfólki Rafveitu Akureyrar boðið til kaffisamsætis 7. september

Sem fyrr segir verður þessara tímamóta minnst með ýmsum hætti í afmælismánuðinum.
Miðvikudaginn 7. september nk. er fyrrverandi starfsfólki Rafveitu Akureyrar boðið til kaffisamsætis í húsnæði Norðurorku á Rangárvöllum, þar sem gefst tækifæri til þess að hittast og rifja upp góðar minningar frá fyrri árum.
Rafveita Akureyrar var gott og farsælt fyrirtæki og vinnustaðinn einkenndi mikil væntumþykja starfsfólks, enda var hverfandi lítil starfsmannavelta hjá fyrirtækinu, sem segir meira en mörg orð um vinnustaðinn.
Gunnur Ýr Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Norðurorku, vonar að sem flest fyrrverandi starfsfólk Rafveitu Akureyrar sjái sér fært að koma, þiggja kaffiveitingar, skoða gamlar myndir og eiga góða stund saman. Skráning á no@no.is eða í síma 460-1300.

Fundur með rafverktökum 8. september

Fimmtudaginn 8. september hefur Norðurorka boðið rafverktökum á svæðinu til samráðs- og kynningafundar í húsnæði Norðurorku á Rangárvöllum. Slíkur fundur hefur áður verið haldinn en það þótti vel við hæfi að endurtaka leikinn í afmælismánuðinum. 
Gunnur segir að Norðurorka vilji leggja áherslu á gott upplýsingastreymi til rafverktaka á svæðinu og að mikilvægt sé að ná samtali við hópinn. „Ávinningurinn af slíkum fundum er gagnkvæmur, það er jafn mikilvægt fyrir okkur að fá endurgjöf og ábendingar frá rafverktökum sem vinna í eða í kringum okkar dreifikerfi eins og að koma okkar upplýsingum og sjónarmiðum áfram til þeirra." Það eru ákveðin mál sem gott er að fara reglulega yfir svo sem öryggismál og ýmis atriði í tengslum við tengingar heimtauga en auk þess er farið yfir þau mál sem eru efst á baugi hverju sinni. "Eitt af því sem m.a. er á dagskrá þessa fundar er rafbílavæðing, uppsetning hleðslustöðva og dreifikerfið á Akureyri en rafbílum hefur jú fjölgað hratt, sem er jákvætt, en þessari fjölgun fylgja ýmsar áskoranir sem gott er að fara yfir og ræða" segir Gunnur og vonast til að sjá sem flesta rafverktaka á fundinum.

Afmælisdagskrá í Hofi 17. september - öllum opin

Þann 17. september milli kl. 13-17 býður Norðurorka uppá opið hús í Menningarhúsinu Hofi þar sem boðið verður uppá sérstaka afmælisdagskrá.
Hamrar kl. 14.00 - 15.30 Áhugaverðir fyrirlestrar um ýmis atriði tengd raforkumálum, svo sem um rafbílavæðingu, hleðslustöðvar, álagsstýringar og snjallmæla auk þess sem saga Rafveitunnar á Akureyri verður rifjuð upp og sagt frá tengingu byggðarlínu Landsnets við Akureyri fyrir u.þ.b. 50 árum síðan. 
Hamragil kl. 13.00 - 17.00.  Gamlar ljósmyndir verða til sýnis úr 100 ára sögu Rafveitunnar auk þess sem gamlir munir úr rafveitunni verða á staðnum. Þjónustufulltrúar frá Norðurorku svara gestum og gangandi um ýmislegt tengt rafbílum og hleðslustöðvum og fulltrúar frá Landsnet verða einnig á svæðinu og svara spurningum sem tengjast byggðalínunni og framkvæmdum sem nú eru í gangi hér á svæðinu.
"Það er auðvitað alltaf einhver skemmtilegur leikur í öllum afmælum og þess vegna langar okkur að bjóða gestum í Hofi að taka þátt í leik. Nöfn þátttakanda fara í pott sem dregið verður úr og verða tveir vinningar í boði, annar fyrir sérbýli og hinn fyrir fjölbýli. Án þess að gefa of mikið upp þá er í lagi að upplýsa að vinningarnir tengjast á einhvern hátt rafbílahleðslum" segir Gunnur og hlakkar til að sjá sem flesta gesti í Hofi.