19. maí 2023

Ertu að fara í framkvæmdir? Við vekjum athygli á kortasjánni

Veitulagnir raf-, hita-, vatns- og fráveitu eru grafnar í jörðu og sjást ekki á yfirborði. Um er að …
Veitulagnir raf-, hita-, vatns- og fráveitu eru grafnar í jörðu og sjást ekki á yfirborði. Um er að ræða mikið af strengjum og lögnum og því er afar mikilvægt að vera búin að kynna sér kortasjánna, þann öfluga gagnagrunn, áður en farið er í framkvæmdir.

Kynntu þér staðsetningu lagna áður en framkvæmdir hefjast

Ein aðal orsök bilana í dreifikerfinu er sú að grafnar eru í sundur vatnslagnir eða rafmagnsstrengir. Þess vegna minnum við á mikilvægi þess að leita upplýsinga um legu veitulagna áður en jarðvegsframkvæmdir hefjast þannig að hægt sé að lágmarka líkur á tjóni og þar með óþægindum fyrir viðskiptavini.

Kortasjáin er öllum opin en þar má finna grunnupplýsingar um veitulagnir. Fyrir ítarlegri upplýsingar hvetjum við þig til að hafa samband við okkur í síma 460-1300 eða á netfangið no@no.is og óska eftir hnitsettum teikningum. Einnig er velkomið að heimsækja okkur á Rangárvelli og nálgast teikningar þar en þær eru oftast afgreiddar á meðan beðið er.

Allar nýframkvæmdir eru GPS-mældar af verktökum eða starfsfólki Norðurorku og upplýsingum bætt inn í teiknikerfið. Þannig er tryggt að haldið sé utan um raunstaðsetningu nýrra lagna í gagnagrunni.

Fleira sem þarf að huga að áður en farið er í framkvæmdir:

Er kominn tími á endurnýjun heimlagna?

Þegar unnið er að viðhaldi hvetjum við húseigendur til að láta okkur vita um framkvæmdirnar þannig að við getum metið hvort ástæða sé til þess að endurnýja heimlagnir samhliða framkvæmdunum. Þar ræður aldur lagna og ástand þeirra við skoðun á staðnum.

Þarf mögulega að fjarlægja veitulagnir í tengslum við framkvæmdina?

Ef framkvæmdaraðili telur að breyta þurfi legu veitulagna vegna framkvæmda sinna, skal hann áður en vinna hefst hafa samband við Norðurorku og óska eftir færslu. Ef fallist er á að breyta legu lagnarinnar, þá lætur Norðurorka framkvæma verkið eftir að samið hefur verið um hver skuli bera kostnaðinn eða hvernig hann skiptist. Meginreglan er að sá sem biður um breytingu greiði kostnaðinn.