10. nóv 2022

Endurnýjun dreifistöðvar nr. 108 - Týsnes

Verið að hífa spenni inn í nýja dreifistöð 108 (Mynd: Sigurður Hjaltason)
Verið að hífa spenni inn í nýja dreifistöð 108 (Mynd: Sigurður Hjaltason)

Síðastliðinn laugardag, 5.nóvember var unnið að endurnýjun dreifistöðvar við Týsnes. Þá var allt sem tengt var í eldra húsinu, þ.e. háspennustrengur og margir lágspennustrengir, tengt yfir í nýtt hús auk þess sem spennir var fluttur á milli. Þar með er dreifistöð 108 komin í nýtt hús. 

Vinna stóð yfir allan laugardaginn, enda um stóra aðgerð að ræða og að verkinu komu sex rafvirkjar, einn starfsmaður framkvæmdadeildar og einn frá Kranabílum Norðurlands. Þegar unnið er við dreifikerfi rafmagns er unnið eftir stöðluðu verklagi í þeim tilgangi að tryggja sem best öryggi fólks sem kemur að vinnunni. Áður en vinna hófst á laugardagsmorguninn, var rafmagn tekið af stöðinni með því að slá út rofa sem fæðir stöðina en hann er staðsettur í annarri dreifistöð. Hver og einn rafvirki sem kemur að vinnunni setur þá sinn persónulás á útslegna rofann áður en vinna hefst og tryggir sig þannig gegn því að rofinn geti verið settur inn á meðan ennþá er unnið við kerfið. Rofann er ekki hægt að setja inn fyrr en allir hafa fjarlægt sinn lás eftir að vinnu lýkur. Norðurorka hefur unnið með LMP kerfið (læsa, merkja, prófa) í nokkur ár og er óhætt að segja að þar með hafi öryggi við störf í rafveitunni aukist til muna.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem Sigurður Hjaltason, verkstjóri rafmagnsþjónustu Norðurorku, tók sl. laugardag.


Mynd tekin í dreifistöð 44 þar sem rafmagn var tekið af um morguninn. Persónulásar starfsmanna komnir á rofann, þar með er búið að læsa út og kerfið tilbúið að fara að vinna á því.


Verið að hífa spenni upp úr gamla húsinu


Þak opnað á nýju dreifistöðinni til að hægt sé að hífa spenninn inn.


Verið að hífa spenni inn í nýju dreifistöðina


Verið að næra sig. Starfsmenn Norðurorku ásamt starfsmönnum frá Rafeyri og Kranabílum Norðurlands


Verið að framlengja strengi frá gömlu og yfir í nýju dreifistöðina.


Strengir eftir að búið er að tengja við gömlu dreifistöðina


Unnið að tengingu í nýrri dreifistöð 


Búið að tengja spenni í nýju dreifistöðinni