Í öllum nýbyggðum hverfum á Akureyri er tvöfalt fráveitu kerfi, það þýðir að það eru tvö rör frá hverju húsi, annað skólp og hitt regnvatn. Skólplagnir taka við því sem kemur frá salernum, vöskum, sturtum og böðum ásamt því sem kemur frá uppþvottavél og þvottavél. Regnvatnslögnin tekur frá þakniðurföllum, niðurföllum í plönum, dren lagnir sem eru lagðar kringum hús og vatni frá heitum pottum.
Með því að aðgreina skólp og regnvatn eins og gert er með tvöföldu kerfi þá er ekki verið að dæla óþarfa vatni í gegnum fráveitukerfið né er verið að hreinsa vatn sem óþarfi er að hreinsa.
Í eldri hverfum bæjarins er einfalt kerfi, þ.e. eitt rör frá hverju húsi sem inniheldur þá bæði skólp og regnvatn. Einfalt kerfi veldur því að vatnsmagn í fráveitukerfinu eykst með tilheyrandi auknu álagi á dælur, lagnir og ekki síst á hreinsistöðina. Þannig er verið að dæla regnvatni sem mætti í raun fara beint út í sjó, langar leiðir auk þess sem verið er að hreinsa vatn í hreinsistöðinni sem óþarfi er að hreinsa.
Fráveitulagnir í götum og sá hluti heimlagna að húsum sem ná að lóðarmörkum tilheyra Norðurorku.
Húseigandi á fráveitulagnir innan lóðamarka þannig að ef bilun er á lögn innan lóðar er það húseiganda að leita til viðurkenndra fagmanna til að leysa málið.
Fráveitu kerfið á Akureyri hefur byggst upp á mörgum árum. Litlar heimildir eru til um elstu lagnirnar og í sumum hverfum er lega heimalagna óþekkt.
Tækninni hefur fleygt fram á síðustu áratugum þannig að langflestar lagnir, sem lagðar eru eftir eftir aldamótin, eru innmældar og skráðar í kortasjá.
Á rauðmerktu svæðunum á myndinni hér að neðan vantar töluvert upp á skráningar og því hvetjum við húseigendur, sem standa í framkvæmdum á lóð á þessum svæðum, sérstaklega til að að láta okkur vita af því. Við viljum gjarnan fá að mæta á staðinn til að mæla fráveitulagnir inn, húseiganda að sjálfsögðu að kostnaðarlausu.
Í kortasjá Norðurorku má finna grunnupplýsingar um lagnir en starfsfólk okkar veitir ítarlegri upplýsingar, svo sem um nákvæma staðsetningu lagna, dýpi þeirra, aldur og gerð.